Þann 9. febrúar kl. 19:00 verður blásið til kvöldverðar, í Múltikúlti, Barónsstíg 3, til styrktar góðu málefni. Að þessu sinni ætlum við að kynna í máli og myndum eitt af þeim stórkostlegu verkefnum sem félagið hefur verið svo heppið að fá að taka þátt í. Það er Sunnusjóðurinn (Sunna Micro loan project) sem hefur lánað fé til 500 kvenna til atvinnusköpunar í Suður Indlandi. Árangurinn er stórkostlegur. Komið og snæðið með okkur góðan mat og hlustum saman á Kristrúnu forsvarskonu verkefnisins segja frá árangrinum, sýna myndir og segja sögur kvennanna.
Allur ágóði kvöldverðarins rennur til Sunnu-sjóðsins.
Maturinn kostar 3000 kr., og samanstendur af indverskum réttum á hlaðborði, bæði fyrir grænkera og hina. Við munum setja inn matseðillinn þegar nær dregur.
Drykkjarföngin eru úr Gvendarbrunni en það má líka taka með sér önnur drykkjarföng 😉
Krakkar undir 10 ára borða frítt enda markmiðið að búa til sannkallaða fjölskyldustemningu.
Ungur gítarleikari úr FÍH mun spila fyrir okkur á undan kynningunni.
Húsnæðið okkar tekur um 50-60 manns. Svo reglan fyrstur kemur fyrstur fær gildir. Það má líka tilkynna hér hverjir ætla örugglega að koma og við getum tekið frá sæti. Hlökkum óheyrilega til að sjá ykkur.