top of page
100_7222.JPG

Um Vini Indlands

Félagið Vinir Indlands var stofnað haustið 2000 og hefur starfað að ýmsum samvinnuverkefnum með sjálfboðaliðum félaganna Action India Charitable Trust, Nesam Trust og Good Samaritan Trust í Tamil Nadu á Suður-Indlandi.

Vinir Indlands er systrafélag Vina Kenía og starfar með þeim að verkefnum undir hatti menningarmiðstöðvarinnar Múltíkúltí. Félagið er aðili að IHA, International humanist alliance.

Verkefni Vina Indlands hafa öll verið unnin í sjálfboðavinnu, bæði á Íslandi og Indlandi. Félagið hefur lagt áherslu á að vinna í mikilli samvinnu við heimafólk á staðnum. Stuðningur Vina Indlands við verkefni kallar á mikla virkni heimafólks og ábyrð á verkefnum.


Starfsemi félagsins er fjármögnuð af styrktaraðilum; einstaklingum og fyrirtækjum og styrktarsjóðum. Auk þessa hafa félagar í Vinum Indlands staðið fyrir glæsilegum styrktartónleikum sem voru árlegur viðburður í 8 ár, þar sem landskunnir listamenn gáfu vinnu sína til styrktar málefninu. Vinir Indlands stóðu einnig að Indverkum kvikmyndahátíðum í samstarfi við Bíó Paradís.


Félagið hefur lagt metnað sinn í það að koma hverri krónu til skila. Peningar sem gefnir eru í söfnun til okkar skila sér 100%. Ekki eru teknir peningar í skrifstofukostnað eða ferðakostnað. Sjálfboðaliðar leggja fram alla vinnu sem lögð er af hendi.

Verkefni félagsins hafa verið fjölbreytt, hér má lesa um nokkur þeirra.

Heimilið í Erode var styrkt af Vinum Indlands m.a. í gegnum styrktarforeldraverkefni.
Heimilið Posum Kodil í Ramanatapuram var heimili fyrir börn og aldraða og er styrkt af Vinum Indlands, m.a. í gegnum styrktarforeldraverkefni.

Vinir Indlands styðja reglulega við verkefni fræðslumiðstöðva í Thellimedu, Saidapet, Salem, Neyveli, Meppedu, Ayymancherry o.fl.

Starf félagsins er grundvallað á manngildishugsjónum, óháð trúarbrögðum og stjórnmálaskoðunum. Mikil áhersla er á samstarf við heimamenn og að verkefnin séu rekin af heimamönnum, á þeirra forsendum og að þeir komi líka með framlög í verkefnin.


Vinir Indlands skipulögðu ferðir fyrir sjálfboðaliða í samvinnu við Vini Kenía og Múltkúltí á hverju ári.

Eftir að núverandi stjórnvöld komust til valda á Indlandi varð breyting á stefnu stjórnvalda í Indlandi gagnvart erlendum góðgerðarsamtökum sem störfuðu í landinu. Stefna þeirra hefur verið að draga úr áhrifum erlendra samtaka í Indlandi sem stjórnvöld telja að sum hver hafi verið að tala fyrir vestrænum gildum á Indlandi eða boða t.d. kristna trú. Sumt af þeim boðskap sem erlendi samtök hafa verið að boða samræmast ekki hindúisma. Á sama tíma hafa indverks stjórnvöld gert átak í því að stórefla stuðning við munaðarleysingumheimili og leysa þar með af hólmi það hlutverk sem samtök eins og Vinir Indlands hafa sinnt á undanförnum árum. Indverk stjórnvöld hafa þannig takmarkað getu Vina Indlands og marga annarra samtaka til þess að styrkja verkefni fjárhagslega á Indlandi.  Vinir Indlands virða þennan vilja Indverska stjórnvalda og hafa því hætt fjárhagsstuðningi í bili að minnsta kosti við þau heimili munaðarlausra barna sem studd hafa verið á undanförnum árum.  Engin munaðarlaus börn
hafa borið skaða af því vegna þess að þau eru núna á munaðarleysingja heimilum sem  eru rekin af Indverska ríkinu.  

Vinir Indlands eru þannig að breytast úr því að vera fjárhagslegur bakhjarl illra staddra á Indlandi í það að vera samtök sem stuðla að kynningu á indverski menningu á Íslandi og stuðla að ferðum Íslendinga til Indlands þannig að Íslendingar geti kynnst hinum ríka menningararfi Indlands.  
 

Hugsjónin

Vinir Indlands er vettvangur til þess að gera góðan ásetning að veruleika.

Vinir Indlands leggja áherslu á að aðstoða þurfandi til sjálfsbjargar.  Starf félagsins er grundvallað á manngildishugsjónum, óháð trúarbrögðum og stjórnmálaskoðunum. Mikil áhersla er á samstarf við heimamenn og að verkefnin séu rekin af heimamönnum, á þeirra forsendum og að þeir komi líka með framlög í verkefnin. Slík framlög geta verið í formi peninga, vinnuframlags, vörum eða þjónustu. Þannig stefna Vinir Indlands að því að hver króna sem félagið fær í framlag frá einstaklingum og félögum á Íslandi skili sér sem tvær krónur á vettvangi verkefnis í Indlandi.

Allt starf í þágu Vina Indlands hefur verið unnið í sjálfboðaliðavinnu, allur ferðakostnaður þeirra sem fara til Indlands til þess að starfa fyrir félagið er greiddur af þeim sjálfum.  Þetta þýðir að öll framlög sem félagið fær skila sér beint til verkefna á Indlandi. (Á árinu 2012 var þetta hlutfall 98%, 2% sem upp á vantar er banka- og sendingarkostnaður).  Vinir Indlands gera sömu kröfu til samstarfsaðila sinna á Indlandi. En Vinir Indlands starfa með betur stæðum indverjum sem svíður að horfa uppá örbirgð samlanda sinna.

Lög félagsins

I. Nafn og aðild

 

1. Félagið heitir Vinir Indlands.  Lögheimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. Félagið er opið öllum þeim einstaklingum hér á landi, sem vilja vinna að markmiðum þess, sbr. ákvæði II. kafla.  Allir þeir sem taka þátt í starfsemi félagsins með fjár- og vinnuframlagi teljast félagsmenn með rétt til setu á aðalfundum.

II. Markmið og verkefni

 

3. Markmið félagsins er að styðja fjárhags og félagslega illa statt fólk  til sjálfsbjargar á Indlandi sérstaklega þó að gefa efnalitlum börnum kost á betri framtíð með því að styrkja þau til mennta, jafnframt því að styðja við rekstur heimilis fyrir munaðarlaus börn.  Félagið hefur það að markmið að styrkja aðallega verkefni sem eru stjórnað af indverjum og kostuð af þeim að hluta.

Það er markmið félagsins að vinna að verkefnum á Indlandi í gegnum tengslanet sjálfboðaliða International Humanist Alliance til þess að tryggja að samstarfsaðilar félagsins á Indlandi séu áreiðan­legir og vinni  sjálfboðaliðastörf sín af sambærilegri  hugsjón og Vinir Indlands.

Markmiðum félagsins verður náð með beinum fjárframlögum og óbeinum stuðningi s.s. með þátttöku íslenskra sjálfboðaliða á Indlandi og Íslandi.

III. Stjórn og starfsemi

 

4. Í stjórn félagsins sitja þrír stjórnarmenn auk varamanns, sem kjörnin er á aðalfundi skv. 11. grein. Formaður skal kjörinn sérstaklega en aðrir stjórnarmenn í einu lagi.  Stjórn skal sjálf skipta með sér verkum og velja ritara og gjaldkera.

5. Stjórn félagsins fer með æðsta vald í málefnum þess milli aðalfunda.  Hún skal koma saman til fundar eftir því sem þörf krefur.  Formaður skal boða stjórnarfundi og skal fundarboð sent stjórnarmönnum með viku fyrirvara nema brýna nauðsyn beri til annars.  Fari einhver stjórnarmanna fram á fund skal orðið við beini hans og fundur boðaður eins fljótt og auðið er.

6. Stjórn er ákvörðunarbær ef að minnsta kosti 3 stjórnarmenn sitja fund.  Við ákvrðanatöku gildir einfaldur meirihluti.  Falli atkvæði jafnt ræður atkvæði formanns úrslitum.

7. Stjórn félagsins getur boðað til almennra félagsfunda svo oft sem þörf krefur.  Komi fram krafa um fund frá að minnsta kosti 10 félagsmönnum skal stjórn boða til fundar eins fljótt og auðið er.  Almennir stjórnarfundir geta ályktað í nafni félagsins um málefni sem tengjast markmiðum þess.

IV. Aðalfundur

 

8. Aðalfund félagsins skal halda eigi síðar en 30 apríl ár hvert. Boða skal til aðalfundar á tryggilegan hátt með tilkynningu til allra félagsmanna með að minnsta kosti tveggja vikna fyrirvara.  Dagskrá skal fylgja aðalfundarboði auk tillagna til lagabreytinga ef einhverjar eru.  Aðalfundur er lögmætur og ákvörðunarbær et til hans er boðað í samræmi við lög félagsins.

9. Sérhver félagsmaður hefur eitt atkvæði.

 

10. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

  1. Skýrsla stjórnar

  2. Reikningar

  3. Kosning formanns, 6 stjórnarmanna og tveggja endurskoðenda.

  4. Lagabreytingar

  5. Önnur mál.

Heimilt er að breyta röð dagskrárliða með samþykki aðalfundar.

 

11. Heimilt er stjórn að boða til aukaaðalfundar ef brýna nauðsyn ber til.  Boða skal til aukaaðalfundar með sama hætti og til aðalfundar.  Er aukaaðalfundur þá ákvörðunarbær um sömu atriði og aðalfundur.

 

V. Lagabreytingar

 

12.  Tillögur til lagabreytinga skulu berast stjórn í tæka tíð þannig að unnt sé að kynna þær í aðalfundarboði, sbr. 8. gr.

13. Til þess að lagabreytingartillaga nái fram að ganga þarf hún að hljóta stuðning að minnsta kosti 2/3 hluta fundarmanna á aðalfundi.

14. Tillögur um slit félagsins skulu sæta sömu meðferð og lagabreytingartillögur. Verði slit félagsins samþykkt skal aðalfundur jafnframt ákveða á hvern hátt verði farið með eignir félagsins og skuldir.  Skal miða við að láta eignir renna til aðila, sem starfar að sömu eða svipuðum markmiðum og félagið.

15. Lög þessi eru samþykkt á aðalfundi félagsins, sem haldinn var í Reykjavík 30. ágúst 2000 og taka þegar gildi.

----

Í þessari útgáfu laga félagsins hefur verið tekið tillit til lagabreytingar sem gerðar voru á aðalfundum 4. október 2008, 5. nóvember 2011 og 20. janúar 2024.

Stjórn félagsins

Stjórn Vina Indlands sem kosin var á aðalfundi félagsins 2024.

Albert Ólafsson, formaður - albertolafsson(hjá)yahoo.com

Sólveig Jónasdóttir, gjaldkeri - solveigjonas (hjá) gmail.com

Sveinbjörg Rósa Sumarliðadóttir

Kjartan Jónsson, varamaður - kjartanice (hjá) gmail.com

Aðsetur og reikningur félagsins

Vinir Indlands

Bolholti 6

2. hæð 

105 Reykjavík

Reikningur félagsins er 0582-26-6030
Kennitala: 440900-2750

...

© 2025 Vinir Indlands. Powered and secured by Wix

bottom of page